17.10.2013 | 14:54
Forsenda fyrir sjúkrahúsi er að þar séu læknar.
Frábært viðtal við Guðmund Karl Snæbjörnsson lækni um að ekki dugi að fá nýja hlustpípu og hlaupaskó, hafi hann þökk fyrir. Landsmenn allir eiga sitt undir að heilbrigðiskerfið sé sjálft heilbrigt svo það geti aðstoðað sjúka, því er tímabært að almenningur fari einnig að láta í sér heyra og sýni heilbrigðisstarfsfólki stuðning í verki.
Hagsmunir lækna eru órjúfanlega hagsmunir okkar allra, í raunveruleikanum er orðið heilbrigðiskerfi bara heiti yfir þá markvissu samhentu vinnu og ákvarðanir sem starfsfólkið framkvæmir. Heilbrigðiskerfið eða sjúkrahús er í raun ekki til, ekki einu sinni að nafninu nema þar séu læknar og annað starfsfólk. Það er starfsfólkið og ekkert annað sem gerir heilbrigðiskerfið að raunveruleika, það gerir það með viðveru sinni, þekkingu, framkvæmd, samvinnu sín á milli og hjarta. Því er það að húsakynni, lækningatæki gömul eða ný, stefnur eða lagasetningar er til neins og merkingarlaust nema þar sé til staðar starfsfólk til að framkvæma og nýta tækin og húsakynnin.
Samþykktir beggja stjórnarflokkanna frá síðustu landsfundum þeirra er ánægjuleg lesning þegar kemur að velferðarmálum. Í stefnu flokkanna er samþykkt ályktun hjá báðum stjórnarflokkunum að heilbrigðisstarfsfólkið er undirstaða og hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins.
Samþykkt á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013 er orðrétt eftirfarandi: Nauðsynlegt er að hverfa af braut þeirrar gegndarlausu niðurskurðarstefnu sem heilbrigðisþjónustan hefur orðið að þola um árabil. Þar skal haft að leiðarljósi að heilbrigðisstarfsfólk okkar eru hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins. Leggja verður ríka áherslu á breytta forgangsröðun varðandi fjárveitingar til endurskipulagningar og uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu í þágu sjúklinga og með bættu starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstétta.
Samþykktir á Landsfundi Framsóknarmanna í heilbrigðismálum er í inntaki samhljóða Sjálfstæðisflokknum og orðrétt þessi:
Leggja ríka áherslu á að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felast fyrst og fremst í mannauðnum og því þarf að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar.
Óumflýjanlegt er að það verður að halda í læknanna sem eru enn á Íslandi og semja við þá um hærri laun. Það er vel hægt þar sem sem fjöldi af stöðugildum eru ómannaðar og ekki þarf að greiða þeim læknum laun sem ekki eru starfandi. Heilbrigðisráðherra ber væntanlega ríkan vilja til að fylgja stefnu sins flokks sem hefur skilning á að grunnlausnin í heilbrigðiskerfinu er mannauðurinn. Flokkurinn hlaut kosningu í stjórn ekki síst vegna þessara samþykktar.Guðmundur Karl Snæbjörnsson skilgreinir vel raunveruleikann sem blasir við og bendir á að ekki muni takast að fá hæfa erlenda lækna til starfa hér, það hafi þegar verið reynt án árangurs og í óbreyttu ástandi segir hann eru enn fleiri læknar á förum.
Skora á almenning að flykkja sér saman um undirskriftarsöfnun með ákall um úrbætur til stjórnvalda.
Ný hlustpípa og hlaupaskór duga ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Snilldarinnlegg Anna Björg
Guðmundur Karl Snæbjörnsson, 17.10.2013 kl. 15:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.